Langt síðan ég hef skrifað nokkuð hérna inn en nú ætla ég að taka mig á og skrifa seríu af greinum sem innihalda upplýsingar um hvernig á að setja upp APRS stafvarpa á Íslandi svo þeir fylgi þeim stöðlum sem APRS-TF ráðið hefur sett sér.
Fyrst ætla ég að fara yfir nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar setja á upp APRS stafvarpa. Til að byrja með, hvað er stafvarpi? Stafvarpi (e. digipeater) er stafrænn endurvarpi (e. digital repeater) sem tekur inn stafrænt mótað merki, vistar það í minni, og sendir áfram, oft á sömu tíðni, en ekki alltaf. APRS kerfið á Íslandi gengur allt á simplex sendingu og móttöku og er því eingöngu á 144.800MHz. Móttaka er á nokkrum stöðum á 144.825 sem er gervihnattatíðni APRS. Það eru í grunnin tvær tegundir af stafvörpum reknar hér sem annars vegar er W1 sem er hugsaður sem uppfylling til að ná hærri stafvarpa sem nefnist W2. TF3SUT er dæmi um W1 stafvarpa en TF3APB er dæmi um W2 stafvarpa.
Gott er að hafa nokkur atriði í huga áður en farið er af stað að setja upp stafvarpa.
- Er þörf á stafvarpa á því svæði sem ætlun er að koma upp stafvarpa?
- Er annar W2 stafvarpi innan 50km radíus?
- Á að setja upp W2 eða W1 stafvarpa?
- Á stafvarpinn að vera nettengdur? Almennt er mælst með því að W1 stafvarpar séu einnig internet gáttir (IGáttir) en W2 stafvarpar þurfa þess ekki, en engu að síður er það kostur.
- W1 stafvarpar hafa litlar kröfur um staðsetningu eða almennar uppsetningar hvað varðar búnað, sendir og loftnet. Annað gildir þó um W2 og er gott að hafa í huga það sem talið verður síðar.
- Hvert er hámark kostnaðar sem má hljótast af framkvæmdinni?
Byrjum á W1 stafvörpum.
Hugmyndin með W1 stafvörpum er alla jafnan að fylla uppí svæði þar sem erfitt er að ná sambandi við W2 stafvarpa. Gott dæmi eru holtin og túnin sem ná illa inná W2 stafvarpa. Í flestum tilfellum eru svona stafvarpar hentugir heima hjá radíóamatörum (eða eins og í mínu tilfelli, heima hjá foreldrum mínum þar sem TF3SUT-2 er alla jafnan starfræktur). Með svona uppsetningu getur maður verið viss um að ná sambandi í kringum sitt nánasta svæði og á meðan maður er að slá garðinn eða týna uppskeruna úr jarðarberjakassanum útí garði. Uppsetningin sem ég mæli fyrir W1 er þokkalegt net sem skorið er fyrir 2m á amatöratíðnum og staðsett á þokkalegum stað á húsþakinu eða hvar sem því verður best komið, TNC-PI með Raspberry Pi er mjög hentug uppsetning en nota má hvaða TNC og tengja það við hvaða tölvu sem er með KISS staðlinum. Helsti kostur við W1 +Igátt uppsetningu er að þá er verið að byggja upp litlar einingar í APRS sem auka drægni en hafa ekki mikil víðdreifðaráhrif með áhættu á árekstrum í loftinu. (Nánar um það í næsta pistli) Uppsetningin mín er sem segir:
- Loftnet: TRAM lofnet úr bílanaust ofan á skorsteini hússins. (~12þús kr)
- APRS Merking I#, T& eða R& eftir því sem við á. (I# Stafvarpi með igátt, T& Igátt sem sendir og móttekur, R& IGátt sem einungis móttekur)
- Talstöð er KT8900 sem kostar 60USD á ebay. (var rétt rúm 8þús hingað komin)
- Módem er TNC-PI sem kostar um 40USD frá Coastal Chipworks.
- Tölvan er Raspberry Pi sem fá má í íhlutum og miðbæjarradíó sem og á netinu fyrir einhverjar ~10þús kr með spennugjafa, minniskorti og hulstri.
- 12V 6A spennugjafi fyrir talstöð (8~15þús kr í íhlutum eða miðbæjarradíó)
- RG214 kapall (1200kr meterinn í Eico og nokkur tengi eru c.a. 2~3þús kr) (Ef vegalengd er undir 12metrar er engin sérstök ástæða til að nota RG214 og má vel nota RG213 eða RG58 hvort sem það er low loss eða venjulegur)
Eins og sjá má er þetta nú engin sérstök ósköp í kostnaði. Sé maður radíóamatör á annað borð er sumt af þessu jafnvel að finna heima fyrir eins og kapla, talstöðvar og fleira, sem og annað má jafnvel finna á netinu fyrir minna. Í þessum tölum er auðvitað ekki minnst á hluti eins og suðuteip, bolta og festingar og annað tilfallandi, en slíkt er nú oft hægt að fá lánað hjá APRS-TF ráðinu sem og aðstoð við uppsetningu búnaðar. En förum yfir kosti við W1:
- Kostnaður ~50þús og má halda neðar sé búnaður til fyrir.
- Fín uppsetning heima fyrir sem bíður uppá áframhaldandi fikt (setja upp veðurstöðvar og allskyns gagnamælingar)
- Skemmtilegt föndur við að koma upp búnaði heima fyrir án mikilla framkvæmda.
- Margt smátt gerir stórt, því fleiri sem koma upp APRS W1 stafvörpum með igáttum þeim mun traustara er APRS-TF kerfið.
- Kynnast þeim skemmtilega hóp sem APRS-TF er.
En hvað með W2 stafvarpa?
Þarna erum við komnir út í töluvert stærri pakka með mun ríkari kröfum en fyrir W1. Ástæðan er mjög einföld. APRS í grunnin gerir ráð fyrir leiðarferlinum WIDE1-1 fyrir uppfyllingar en WIDE2-n á að ná til breiðari hóp einstaklinga. Sem dæmi má nefna að TF3RPF (Síðar TF3APA), TF3APB og TF5APA sinna mjög stórum svæðum. TF3APB nær frá Hvolsvelli og suður að Reykjanesbæ og loks norður fyrir Akranes, og sjálfsagt lengra ef hann væri prófaður með fleiri wött í farteskinu. Því þarf að huga mun betur að staðsetningum W2 stafvarpa en að W1 og hafi menn í hyggju að setja upp W2 stafvarpa er lang best að hafa beint samband við okkur í APRS-TF ráðinu sem finna má á facebook og einnig er hægt að senda mér beint póst.
Staðsetningar eru mjög krítískar fyrir W2 stafvarpa. Við viljum hafa þá eins hátt uppi og hægt er og má nefna að TF5APA er á Vaðlaheiði í Eyjafirði, TF3APB er í Bláfjöllum í 20m háu mastri og TF3RPF situr í mastri ofan á Hraunbæ í Árbæ. Á áætlun er að koma upp fleiri W2 stafvörpum og má nefna nokkur dæmi.
- TF8APA á Þorbjarnarfelli við Grindavík (Áætlað vetur 2017)
- TF1APA á Búrfelli í Árnessýslu (Áætlað seint 2017 eða snemma árs 2018)
- TF2APA á Heiðarhorni við Borgarnes (Fjallatoppsenduvarpi áætlaður sumarið 2018)
- TF9APA á Þrándarhlíðarfjalli (Áætlað sumar 2018)
- TFxAPx á Fjórðungsöldu (Áætlun liggur fyrir en ekki vitað um tímasetningu)
- TFxAPx á Strút norðvestan við Langjökul (Áætlun liggur fyrir en ekki vitað um tímasetningu)
Kröfur um módem eru hin sömu og fyrir W1 en ekki er gerð krafa um að W2 stafvarpar séu internettengdir þó slíkt sé ótvíræður kostur. (Ætlunin er að Igáttar væða TF5APA sumarið 2018). Á þessum lista má þó sjá að það er fullt af stöðum á landinu sem enn vantar APRS stafvarpa fyrir landsdekkandi kerfi, má sem dæmi nefna Austfirðina alla og Vestfirðina sem og megnið af miðhálendi Íslands. En lítum aðeins á uppsetningu á TF5APA.
- Stafvarpi í sendahúsi á Vaðlaheiði í Eyjafirði.
- Loftnet er 3dBi 2m fibernet og situr á toppi sendahúss í þríforki ásamt neti F4x4.
- Er í um 600m hæð yfir sjávarmáli
- Sendir er VX-2000 VHF stöð 25W
- Sía er Band pass cavity tunna stillt á 144.800MHz
- Aflgjafi er frá Yaesu.
- Módem er TNC-X með X-digi dótturborði.
- Kapall er RG213.
Þarna má sjá að örlítið meira er lagt í uppsetninguna en á W1. En skoðum síðan TF3APB í samhengi við TF5APA. Þess má geta að TF3APB er úti þegar þessi grein er rituð eftir að óveður tók niður loftnet með meiru. Stefnt er á viðgerð á næstu dögum.
- Stafvarpi er í sendahúsi Radio.is í Bláfjöllum.
- Loftnet er Kathrein Dipole efst í 20m mastri. (Sambærilegt net á 300~500USD á ebay)
- Er í um 700m h.y.s.
- Sendir er FT-2800 50W. (100 ~150 USD á ebay)
- Sía er Band pass cavity á 144.800MHz (300+USD á ebay)
- Aflgjafi er frá Yaesu (50~100USD)
- Módem er TNC-PI með Raspberry Pi (verður síðar nettengd við 4G og fjarstýranleg) (c.a. 15þús kr m. aflgjafa og korti)
- Kapall er 1/2″ hard liner coax. (Verð rokkar frá 500~1200kr meterinn, tengin enn dýrari)
- Eldingarvari er á áætlun á coax. (c.a. 20USD á ebay)
Þarna má sjá að kostnaðurinn er aðeins kominn upp sem og vesenið í kringum þetta. Eina leiðin uppí bláfjöll er gangandi, með jeppa (að sumri til), snjósleða eða skíðalyftu að vetri til. Smáefnið sem er tilfallandi líka rýkur upp í kostnaði þar sem allt þarf að vera algjörlega pottþétt, smá ísing getur valdið því að kapall er ónýtur ef rangt er staðið að verki. Sem og að á hverjum stað þarf að semja við þá sem halda útí viðkomandi sendastað. Það gefur því auga leið að W2 stafvarpar þurfa að lúta að ríkari kröfum, sem og að umsókn um leyfi fyrir viðkomandi stafvarpa þarf að liggja fyrir hjá Póst og Fjarskiptastofnun. En þrátt fyrir þetta vesen þá tryggja W2 stafvarpar mun meiri drægni en W1 sem þó skipta sköpum til að tryggja öryggt samband t.d. í gegnum handstöð eða á slæmum stöðum.
Ég vona að þessi pistill aðstoði þá sem hafa í hug að koma upp APRS stafvarpa sem og þá sem langar að kynnast APRS betur.
Hægt er að finna okkur á APRS-TF hópnum á Facebook eða senda mér tölvupóst á samuel@ulfr.net fyrir frekari upplýsingar.